146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

þungunarrof og kynfrelsi kvenna.

[16:16]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Herra forseti. Þegar ég lauk máli mínu hér áðan var ég að tala um fordóma og sjálfsákvörðunarrétt því þetta fer merkilega mikið saman og ég tel að sé mjög mikilvægt að við setjum það í þetta samhengi. Skýrsluhöfundar virðast gera það líka og leggja mikla áherslu á að kynfræðsla þurfi að vera hispurslaus og heiðarleg og það er meira að segja talað um gagnvirkar kennsluaðferðir, sem ég veit ekki hvað þýðir en hljómar vissulega skemmtilega. Í öllu falli er það eitthvað sem við verðum að tala um samfara þessu því það er skömm gagnvart kynhegðun kvenna. Þetta er einn þáttur af því sem hefur staðið konum fyrir þrifum í gegnum aldirnar. Það er okkar verkefni að passa að þær þurfi ekki að burðast með það inn í næstu aldir.

Varðandi tillögurnar sjálfar held ég að það beri sérstaklega að fagna þessu með byrjunina og grunninn, hvaðan kemur þetta allt saman. Því er sérstaklega áhugavert að velta upp hugmyndum um t.d. ókeypis smokka í menntaskólum. Ef maður hugsar um peninga í því samhengi þá er auðvitað áhugavert að það sem við köllum núna fóstureyðing er niðurgreitt af ríkinu í svona miklum mæli meðan getnaðarvarnir eru það síður. Við erum það Norðurlandanna sem greiðum hvað minnst í þeim þætti málsins sem er eflaust hægt að endurskoða.

Varðandi tímalengdina varð ég örlítið skeptísk fyrst um hversu rúmur rammi þetta væri, en mér finnst skýrsluhöfundar rökstyðja það vel.

Ég vil að lokum segja að almennt er ég ekki mjög hrifin af því að við breytum orðum þegar við þurfum að tækla fordóma, í staðinn fyrir bara að reyna að tækla fordómana. En að sama skapi finnst mér hins vegar ástæðan fyrir því að breyta fóstureyðingu yfir í þungunarrof vel rökstudd í skýrslunni og set mig því ekki á móti því. Að öðru leyti þakka ég fyrir umræðuna.