146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

umbætur í aðbúnaði og málefnum eldri borgara.

[16:57]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja sérstaka umræðu um þetta mikilvæga málefni og góða efnislega framsögu.

Það velkist enginn í vafa um að sýn og viðhorf til efri ára hafa breyst mjög undanfarin ár. Kröfur og væntingar breytast, sem m.a. endurspeglast í mikilvægi þess að hverjum og einum sé gert kleift að taka virkan þátt í samfélaginu eins lengi og kostur er. Það er ekki síður lögð áhersla á tækifæri til að efla eigið heilbrigði og lífsgæði. Í því felst t.d. að eiga kost á að búa sjálfstætt á eigin heimili og hafa aðgang að þjónustu heim miðað við þarfir.

Hvað varðar forvarnir og mótun heilsueflandi samfélaga og átak landlæknis tel ég mjög mikilvægt að sveitarfélög móti sér lýðheilsustefnu sem er algerlega í takt við átakið og megi eiginlega segja að sé framhald af þeirri vinnu. Nokkur sveitarfélög hafa nú þegar mótað lýðheilsustefnu. Sjálf hef ég tekið þátt í slíkri vinnu hjá sveitarfélagi og eru málefni eldri borgara mjög stór þáttur í því verkefni.

Lýðheilsa er stærra hugtak en forvarnir og nær til samfélagsins alls. Ábyrgð sveitarfélaga er að búa til samfélag fyrir alla íbúa, burt séð frá því hvort aldurinn sé lögbundinn eða ekki, þar sem horft er til þátta sem hafa áhrif á heilsu og vellíðan bæjarbúa þar sem unnið er að markvissum aðgerðum í mörgum mikilvægum þáttum eins og t.d. bara í skipulagi, í umhverfinu, út frá öryggi, hvatningu, samvinnu og fræðslu. Sveitarfélög þurfa að leggja áherslu á lýðheilsusjónarmið í málefnum eldri borgara. Með öflugum forvörnum er hægt að auka lífsgæði og stuðla að virkni og heilbrigði borgara.