146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

aðgerðir á kvennadeildum.

229. mál
[17:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Þann 20. nóvember síðastliðinn sendi Kvenfélagasamband Íslands frá sér ályktun. Þar skorar Kvenfélagasamband Íslands á væntanlegan hæstv. heilbrigðisráðherra, nýja ríkisstjórn, nýkjörna hv. alþingismenn að gera átak í að leysa það ófremdarástand sem skapast hafi þar sem konur geti þurft að bíða í allt að þrjú ár eftir að komast í grindarbotnsaðgerðir.

Fram kemur í tilkynningunni að 300 konur bíði nú eftir að komast í aðgerðir á kvennadeild Landspítala en þær aðgerðir sem um ræði séu einkum vegna blöðrusigs, ristilsigs, legsigs og þvagleka. Svo virðist vera sem konur sem þurfa á aðgerðum eins og þessum að halda hafi orðið út undan þegar peningum er útdeilt í heilbrigðiskerfinu.

Kvenfélagasamband Íslands bendir á að þarna sé um óbeina kynbundna mismunun að ræða.

Í tilkynningunni segir jafnframt að ekki þurfi mikið ímyndunarafl til að átta sig á hversu mikil áhrif þessi langa bið hefur á lífsgæði kvenna.

Þegar tilkynningin barst okkur hv. þingmönnum setti sá þingmaður sem hér stendur saman þingsályktunartillögu ásamt öðrum hv. þingmönnum úr fjórum flokkum um að Alþingi álykti að fela hæstv. heilbrigðisráðherra að hefja nú þegar átak í styttingu biðlista eftir aðgerðum á kvennadeildum. Við hv. þingmenn sem stöndum að tillögunni bendum jafnframt á mikilvægi þess að efla enn frekar heilbrigðisstofnanir víða um landið og fela þeim verkefni. Til dæmis rekur Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi kvennadeild sem eflaust væri vel til þess fallin að taka við verkefnum sem þessum.

Virðulegur forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur ráðist í átak í að stytta biðlista eftir liðskiptaaðgerðum, hjartaþræðingum, augnsteinaaðgerðum og einnig kvennaaðgerðum, og fagna ég því verulega. Fram kemur í fréttatilkynningu frá velferðarráðuneytinu að Landspítali muni annast allar tegundir þeirra aðgerða sem falla undir átakið, Sjúkrahúsið á Akureyri framkvæmi allar aðgerðir aðrar en hjartaþræðingar og að Heilbrigðisstofnun Vesturlands annist liðskiptaaðgerðir. Ég verð því að segja að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur nú þegar að mestu leyti svarað þeirri fyrirspurn sem ég lagði fram í þinginu þann 7. mars síðastliðinn. Fyrirspurnin er:

1. Telur ráðherra rétt að hefja átak í að stytta biðlista eftir aðgerðum á kvennadeildum, samanber tillögu til þingsályktunar um styttingu biðlista á kvennadeildum? Ef svo er, hvernig hyggst ráðherra stytta biðlista eftir aðgerðum?

2. Hyggst ráðherra bregðast við ályktun Kvenfélagasambands Íslands um mikilvægi þess að hefja átak nú þegar í að stytta biðlista og fjölga aðgerðum á kvennadeildum?

3. Telur ráðherra mögulegt að nýta auðar skurðstofur og sjúkrarými á landsbyggðinni til að fjölga aðgerðum á kvennadeildum?

Mig langar þó að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hversu margar kvennaaðgerðir eigi að ráðast í samkvæmt því átaki sem hrundið hefur verið af stað. Hversu margar aðgerðir er áætlað að fara í á þessu ári? Á biðtími vegna þessara aðgerða að vera kominn niður fyrir 90 daga viðmiðunartíma?