146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

heilbrigðisáætlun.

230. mál
[17:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og fagna henni. Mjög mikið hefur verið rætt í íslenskum stjórnmálum síðustu árin um mikilvægi heilbrigðisþjónustunnar og mikilvægi þess að við bætum í — stundum hafa verið notuð svo stór orð eins og að við endurreisum eða alla vega setjum mikinn kraft í heilbrigðisþjónustuna sem hefur að mörgu leyti átt erfitt eftir niðurskurð hrunsins og á eftirhrunsárunum, en sömuleiðis með nýjum áskorunum sem koma vegna öldrunar þjóðarinnar, fjölgunar landsmanna, stóraukinnar ferðamennsku og fleiri atriða. Það eru allt saman merki um að heilbrigðisþjónustan og heilbrigðismálin eru á fleygiferð. Ég fagna því og hef áður sagt það í þessum stól að ég tel að það séu forréttindi að vinna við málaflokk þar sem er nokkuð skýr þverpólitískur og þversamfélagslegur vilji til þess að gera vel.

Hv. þingmaður beinir til mín fjórum spurningum sem ég reyni að svara.

Í fyrsta lagi er spurt hvort ráðherra telji þörf á heilbrigðisáætlun fyrir landið, samanber þingsályktunartillögu Framsóknarmanna um heilbrigðisáætlun. Einfalda svarið er já, ég tel þörf fyrir heilbrigðisstefnu fyrir landið. Það kemur skýrt fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, en þar segir, með leyfi forseta:

„Mótuð verður heilbrigðisstefna sem samhæfir og treystir heilbrigðisþjónustuna, bætir lýðheilsu og stuðlar að heilbrigði landsmanna.“

Þótt hv. þingmaður noti orðið heilbrigðisáætlun held ég að við notum hugtökin heilbrigðisstefnu og heilbrigðisáætlun um sama hlutinn enda kemur fram í athugasemdum með frumvarpi hv. þingmanns að víða er talað um stefnu í heilbrigðismálum. Þess vegna ætla ég að leyfa mér að nota hugtakið heilbrigðisstefna. Eins og þarna kemur fram er mikilvægt að heilbrigðisstefna taki til allra þátta heilbrigðis, ekki bara beinnar heilbrigðisþjónustu, það þarf líka að huga að forvörnum til að koma í veg fyrir þróun sjúkdóma, byggja undir heilbrigði og allt samfélagið þarf að taka þátt í því verkefni. Það er ekki bara verkefni sérfræðinga.

Við erum þegar byrjuð að huga að undirbúningi þeirrar vinnu í ráðuneytinu. Eins og hv. þingmaður minntist á var unnin vinna í ráðuneytinu í tíð forvera míns. Ég hef stundum talað um að ég og mitt teymi í heilbrigðisráðuneytinu vinnum eftir stefnunni „upp úr skúffunum“ þar sem við viljum nota þá vinnu sem unnin hefur verið en kannski ekki unnið nógu mikið með. En sömuleiðis leggjum við mikla áherslu á samstarf og samráð. Oft er til vinna sem byggð er á miklu samráði og samstarfi.

Þá spyr hv. þingmaður hvort ráðherra telji rétt að horft sé til landfræðilegra þátta, samgangna, fjarlægða milli byggðarlaga, íbúaþróunar, starfssvæða heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða, sumarhúsabyggða o.s.frv. við gerð heilbrigðisáætlunar. Ég tel mjög mikilvægt að hafa alla þá þætti í huga.

Það eru ekki einu atriðin, það þarf líka að greina hvar helstu veikleikarnir eru í heilbrigðisþjónustunni eins og hún er, því að ekki ætlum við að búa til splunkunýja heilbrigðisþjónustu og kasta þeirri sem fyrir er. Hvort allir hópar fái fullnægjandi þjónustu og hvort þjónustan fari fram á réttu þjónustustigi í öllum tilvikum? Oft held ég að við veitum þjónustu á allt of háu og dýru þjónustustigi sem gerir okkur erfiðara fyrir að veita þjónustuna á ódýrari og einfaldari stigum, eins og í gegnum heilsugæsluna. Það er nefnilega ekki síður mikilvægt að við nýtum það fé sem við höfum til ráðstöfunar þannig að allir eigi kost á nauðsynlegri þjónustu þegar þörf krefur og að ekki verði óhófleg bið.

Í þriðja lagi er spurt hver sé afstaða ráðherra til þess að nýta auð sjúkrarými á landsbyggðinni og létta þannig álagi á Landspítala. Ég tel sjálfsagt, eins og reyndar hefur komið fram fyrr í umræðunni í dag, að nýta allt sem horfir til framfara og stuðlar að því að við getum nýtt sem best mannafla, búnað og húsnæði sem við höfum yfir að ráða. Það er eitt af þeim atriðum sem við höfum oft rætt við sjúkrahúsin að þau eigi gott samstarf sín á milli.

Ég hef lagt mikla áherslu á að Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítalinn eigi gott samstarf við heilbrigðisstofnanir með það í huga að nýta mannafla og fjárfestingar sem best. Ég hef reyndar lagt til að stjórnendur Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri eigi reglulega fundi með stjórnendum heilbrigðisstofnana til að (Forseti hringir.) liðka fyrir því.

Síðan er að lokum spurt hvort ég telji mikilvægt að hafa samráð við fagfólk í heilbrigðisstéttum. Ég svara því (Forseti hringir.) enn og aftur að ég tel það mjög mikilvægt og kem kannski betur að því á eftir.