146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

almenningssamgöngur.

142. mál
[18:45]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka einnig fyrir þessa umræðu, hv. þingmanni fyrir að leggja fram þessa fyrirspurn og svo ráðherra. Ég á líka sæti í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þar sem við erum einmitt að fjalla um umrætt frumvarp sem tekur á þessu. Ég held að búið sé að liggja lengi yfir frumvarpinu, bæði í ráðuneytinu og hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ég vonast til þess að við séum þarna með gott tæki í höndunum til að tryggja þetta hvað einkaréttinn varðar og þá réttaróvissu sem hefur verið uppi þar. Þá er líka mikilvægt að til séu ákveðin stjórnsýslutæki til að bregðast við ef talið er að verið sé að keyra ofan í einkaréttinn.

En ég ætla líka að fá að taka undir með hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé hvað það varðar að líklegt er að á næstunni þyrftum við að fara í að gera sérstakt frumvarp um almenningssamgöngur. Þá er ég kannski líka að vísa til ákveðinna tæknibreytinga og nýjunga sem verða hérna vonandi á næstunni, þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu hvað borgarlínu varðar og annað. Þá vil ég líka koma því á framfæri að við þurfum kannski að taka af einhvern vafa um hver beri ábyrgð á almenningssamgöngum og hver greiði fyrir þær.