146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

framkvæmd þingsályktunartillögu um áningarstaði Vegagerðarinnar.

158. mál
[19:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim þingmönnum sem hér hafa tekið þátt í þessari umræðu. Það gleður mig að þessi þingsályktunartillaga hefur ekki fallið í gleymskunnar dá eins og stundum gerist með tillögur sem eru samþykktar eða vísað til ríkisstjórnar og ekki síst þegar um er að ræða undir lok þings. Ég vil því þakka hæstv. ráðherra fyrir það að málinu hefur verið haldið við og verið haldið vakandi.

Eins og kom fram í svari ráðherrans hefur verið unnið á grundvelli þessarar tillögu, og auðvitað hefur átt sér stað frekari vinna í ráðuneytinu um töluverðan tíma til að kortleggja stöðuna og það hversu mikið stjórnvöld þurfi að grípa inn í þannig að við verðum okkur ekki til skammar fyrir óþrifnað. Það er náttúrlega það sem við viljum allra síst að gerist. Þótt staðan sé sannarlega þannig að hér sé ekki um að ræða skilgreint verkefni Vegagerðarinnar þá held ég að það geti orðið okkur dýrkeypt ef við sem samfélag öxlum ekki ábyrgð á því að hafa þessa lágmarksinnviði í lagi. Því vænti ég þess að þeir staðir sem verði lagaðir til bráðabirgða eða settir upp til bráðabirgða fyrir þetta sumar muni breyta þessari stöðu umtalsvert.

En mig langar til að biðja hæstv. ráðherra í sínu seinna svari að bregðast við því, ef hann sér möguleika á því tímans vegna, af því hér erum við að tala um greiningu og síðan bráðabirgðaaðgerðir, hvernig hæstv. ráðherra sér fyrir sér að ráðstafanir geti orðið til framtíðar, þ.e. varanlegar ráðstafanir, til að bregðast við þessum grundvallarinnviðum innlendrar ferðaþjónustu.