146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

gengisþróun og afkoma útflutningsgreina.

[14:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég biðst velvirðingar að hafa ekki alveg verið tiltækur. En ég þakka fyrir að þessi umræða kemst að og þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka hana.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að Alþingi sé þátttakandi í að ræða þær krefjandi aðstæður sem uppi eru í hagstjórn í landinu. Þróunin hefur verið okkur Íslendingum hagfelld um flest undanfarin ár. Við erum á sjöunda ári hagvaxtar í röð. Tvö undangengin ár hafa farið saman mikill bati á viðskiptakjörum og ævintýralegur vöxtur ferðaþjónustunnar. Nú bætist einnig við innstreymi vegna aukinna erlendra fjárfestinga í hagkerfinu. Þannig hafa t.d. erlendir aðilar aukið hlut sinn í Kauphöllinni um eina 17 milljarða frá áramótum.

Svo mikið er þetta gjaldeyrisinnstreymi að þrátt fyrir 100 milljarða halla á vöruskiptajöfnuði á síðasta ári er ágætur afgangur af viðskiptum við útlönd í heild.

Þá kunna einhverjir að spyrja: Er þá ekki allt í þessu fína lagi? Er nokkur ástæða til að hafa áhyggjur af nokkrum sköpuðum hlut? Er ekki bara um að gera að sjá veisluna, eins og einu sinni var sagt í þessum sölum?

Það er nú það. Ef sagan hefur kennt okkur Íslendingum eitthvað, eða ætti að hafa gert, er það að reyna að sjá tímanlega fyrir og áður en það er of seint að grípa í taumana ef ójafnvægi er að hlaðast upp í hagkerfinu. Ríkisfjármálum hefur verið beitt þannig nú þrjú ár í röð að þau vinna gegn stöðugleika og auka þenslu. Árin 2015 og 2016 fyrst og fremst á tekjuhlið, þ.e. ríkið hefur dregið þannig úr tekjuöflun sinni að það hefur aukið á slakann. Árið 2017, árið í ár, er slakinn að nokkru leyti einnig á útgjaldahliðinni.

Gengi íslensku krónunnar hefur hækkað um u.þ.b. 35% gagnvart sterlingspundi og yfir 20% gagnvart evru og langleiðina það gagnvart dollar á síðastliðnum tveimur árum. Á sama tíma hafa launahækkanir verið umtalsverðar og vextir eru hér einhverjir þeir hæstu á byggðu bóli. Rekstrarumhverfi útflutningsgreina er því gerbreytt. Haldi þessi þróun áfram mun hún hafa mikil ruðningsáhrif.

Minni og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki, minni ferðaþjónustufyrirtæki, ekki síst þau á landsbyggðinni, með árstíðabundinn rekstur, sprota-, tækni og þekkingarfyrirtæki, þau sem þá ekki bregðast við ástandinu með fótunum og fara úr landi, sjá á einum tveimur árum tugprósenta gjá myndast milli tekna í erlendri mynt og útgjalda í krónum. Alvarlegast er þó auðvitað ef ójafnvægi hleðst upp í hagkerfinu sem á endanum leiðréttist harkalega á kostnað almennings og almennra lífskjara í landinu. Þar liggja skyldur okkar fyrst og fremst, að fljóta ekki sofandi eins og svo oft áður við að einhverju leyti sambærilegar aðstæður þar til almenningur fær að lokum harkalegan skell.

Í framhaldi af þessu og með þessum inngangi vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. ráðherra:

Hvernig metur ráðherra stöðuna hvað varðar afkomu útflutningsgreina í ljósi mikillar styrkingar krónunnar á undanförnum misserum?

Hafa stjórnvöld lagt mat á hvert sé æskilegt raungengi krónunnar með tilliti til samkeppnisstöðu útflutningsgreina og jafnvægis í hagkerfinu? Ef svo er, hvar liggur það jafnvægisgengi miðað við núverandi gengi krónunnar?

Hafa stjórnvöld greint vægi einstakra þátta sem liggja til grundvallar styrkingu krónunnar að undanförnu, svo sem innstreymis vegna aukinna fjárfestinga erlendra aðila í hagkerfinu, hreyfingar sem tengjast afnámi hafta, vaxtar ferðaþjónustu o.s.frv?

Hafa stjórnvöld lagt mat á líkleg ruðningsáhrif af núverandi sterku gengi krónunnar, ég tala nú ekki um ef það styrkist enn, á lítil og meðalstór sjávarútvegs- og ferðaþjónustufyrirtæki, tækni- og þekkingarfyrirtæki, sprotafyrirtæki og nýsköpun?

Ég fjalla hér sérstaklega um lítil og meðalstór fyrirtæki vegna þess að þó að áhrifin séu að sjálfsögðu almenn er geta fyrirtækjanna til að bregðast við þeim og mæta þeim talsvert bundin við stærð þeirra og fjárhagslegan styrk.

Og að lokum: Hvaða aðgerðir telur ráðherra koma til greina til að undirbyggja efnahags- og gengisstöðugleika sem tryggja í senn hagsmuni almennings og um leið útflutningsstarfseminni viðunandi samkeppnisskilyrði? Eru slíkar aðgerðir í undirbúningi? Ég vil hér gjarnan fá sérgreindar hugmyndir ráðherrans, svo sem eins og hvort til greina komi að bremsa að einhverju leyti niður vöxt ferðaþjónustunnar, beita ríkisfjármálunum með öðrum hætti, hvaða álit hæstv. ráðherra hefur á vaxtastefnu Seðlabankans í þessu samhengi o.s.frv.