146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

gengisþróun og afkoma útflutningsgreina.

[14:20]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Frú forseti. Ég deili áhyggjum málshefjanda, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, á þessari þróun, þ.e. af áhrifum þessarar gengisþróunar á útflutningsatvinnuvegina. 25%, 35% hækkun á krónunni er auðvitað meira en þessir atvinnuvegir þola.

Ég er líka sammála því sem kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra að það sem verða má til einhvers konar bata eða lagfæringar á þessari stöðu á næstunni er auðvitað fyrst og fremst vaxtalækkun og breyting á óskiljanlegri vaxtapólitík Seðlabankans. Hann hefur reyndar loksins fengist til þess að segja að vaxtalækkunin sé væntanleg sem minnkar þá þrýsting á krónuna, auk þess sem losun hafta nýverið ætti að leiða til þess að lífeyrissjóðirnir hafi meiri hvata, ef vaxtalækkunin kemur til viðbótar, til þess að leita annað með peningana sína, það ætti líka að minnka þrýstinginn á krónuna þótt aðrar vísbendingar séu nú hreinlega fremur í þá átt að krónan gæti styrkst. Að þessu leyti erum við auðvitað að mörgu leyti fórnarlömb eigin velgengni.

Af því þetta barst líka í tal í sambandi við umræðuna sem var hérna áðan um Granda og þær aðgerðir sem hafa verið uppi á Skaga þá held ég að fólk verði að hafa í huga hvað hefur gerst í bolfiskvinnslunni á síðustu misserum. Ef við leggjum saman gengisáhrifin, áhrifin af verkfallinu til lækkunar á afurðaverði og launahlutfallið, þá hefur þróunin verið sú að á örfáum mánuðum hefur launahlutfall í bolfiskvinnslu vaxið úr því að vera 15% að meðaltali í það að fara yfir 30%. (Forseti hringir.) meðan t.d. launahlutfallið í bræðslu og frystingu á uppsjávartegundum er 5–8%. (Forseti hringir.) Þetta verðum við að hafa í huga þegar við förum að skoða þessa stöðu.