146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:12]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ef hagfelldar spár sem liggja undir stefnunni, og kynntar eru í greinargerðinni, ganga eftir þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur. En ef það verður hins vegar samdráttur er búið að samþykkja, ef stefnan verður samþykkt, að útgjöldin fari ekki upp fyrir 41,5% af vergri landsframleiðslu. Ef mikill samdráttur verður þýðir það að skera þarf niður í stóru sameiginlegu kerfunum okkar. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort ég skilji þetta ekki örugglega rétt. Það ruglar mig svolítið í ríminu að um leið og menn vilja setja sér útgjaldaþak tala menn um stöðugleikasjóð sem hægt væri að setja inn til að jafna sveiflur. En hvernig á stöðugleikasjóðurinn að virka ef hann má ekki auka í útgjöldin? Er með þessari útgjaldareglu einungis verið að tryggja að skattar verði ekki hækkaðir á auðmenn og stöndug fyrirtæki eða auðlegðarskattur lagður á, og tryggja að ef kreppir að (Forseti hringir.) verði skorið niður en tekna ekki aflað.