146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:17]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni svarið. Já, við erum í spennitreyju. Hér er verið að leggja fram fjármálastefnu þar sem hagsveiflan á að ráða för. Ekki er gert ráð fyrir neinni tekjuöflun. Og af því að hv. þingmaður og samþingmenn hans í nefndinni vita að það er brýn þörf fyrir fjárfestingu hvort sem er litið til heilbrigðiskerfisins og hv. þingmaður ræddi um samgöngur. Við getum líka talað um skólakerfið, hv. þingmaður veit að það er brýn þörf og þá á að reyna að fara aðrar leiðir. Losa fjármagn úr fyrirtækjum hins opinbera? Hvað er átt við með því? Er verið að tala um að fara að selja opinber fyrirtæki til að ná inn fjármagni í nauðsynlega fjárfestingu, af því að það er trúarsetning hjá þessari ríkisstjórn að það megi ekki afla nýrra tekna til að standa undir þeirri nauðsynlegu innviðauppbyggingu sem allir flokkar lofuðu fyrir kosningar? Mig langar að biðja hv. þingmann að útskýra betur hvað hann átti hér við áðan þegar hann talaði um að losa fjármuni með þeim hætti