146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið og við erum þá sammála um þetta: Það er mikilvægara að vandað sé til ferlisins en að við hlaupum til og lækkum skuldirnar til þess að gera það í flýti, þó að rök geti vissulega mælt með því. Ég vissi að þetta væri svolítið erfið spurning sem ég væri að leggja fyrir hv. þingmann en við erum öll að fara í gegnum lærdómsferli. Tíminn til undirbúnings að þessari stefnu var vissulega knappur. Ég lagði metnað í að leggja þessa stefnu fram á fyrsta degi þingsins líkt og gert er ráð fyrir. Bent hefur verið á að við höfum ekki farið eftir ráðleggingum fjármálaráðs. Það var erfitt fyrir mig að gera það því að það gaf ekki ráðin fyrr en eftir á. En ég mun taka tillit til þessara athugasemda næst þegar ég legg fram frumvarp um fjármálastefnu að fjórum árum liðnum.