146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbankans og Búnaðarbankans.

[15:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að finna að fundarstjórn forseta heldur nýta þennan dagskrárlið til að beina spurningu til hæstv. forseta. Í morgun afhenti rannsóknarnefnd Alþingis forseta skýrslu um þátttöku Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands hf. árið 2003. Við umfjöllun málsins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og kynningu á málinu í morgun kom fram auðvitað hið augljósa, að hér er um að ræða einungis hluta stórs máls.

Á 141. löggjafarþingi var samþykkt tillaga til þingsályktunar um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbanka Íslands og Búnaðarbankans. Hér liggur fyrir að við sjáum aðeins hluta heildarmyndarinnar við útgáfu og framkomu þessarar rannsóknar. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forseta hvort hann vilji ekki leggjast á árar með okkur í þinginu, enda liggur fyrir samþykkt þingsályktunartillaga, um að tryggja fjármagn (Forseti hringir.) til að hefjast handa við að leggja upp í þessa rannsókn sem þingið hefur samþykkt til þess að freista þess að fá heildarmynd af málinu.