146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:02]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum haldið áfram þessari umræðu og erum komin yfir á nýjan dag. Mig langar að rifja upp þær aðstæður sem við erum í eftir samræðu gærdagsins. Sú fjármálastefna sem við ræðum hér — það eina sem hægt er að draga beint úr henni er að þetta er fjármálastefna um skuldalækkun. Það er það eina sem er mjög skýrt. Allt annað í henni, allt annað sem samkvæmt lögum er kveðið á um, er miklu óskýrara. Til dæmis er minnst á þessa uppsöfnuðu fjárfestingarþörf en ekki þróun hennar, hvernig á að tækla þá fjárfestingarþörf, hvaða upphæðir erum við að tala um þar? Sú skuldalækkun sem við erum að fara í, samkvæmt þessari stefnu, gengur út á um 20 milljarða á ári að meðaltali. Ef við borgum niður skuldir förum við í lægri vaxtagreiðslur og það endar í 20 milljörðum á ári, eftir því sem mig minnir. Samkvæmt stefnunni. Úr 70 niður í 50 milljarða vaxtagreiðslur. Einnig er talað um að lífeyrisskuldbindingar verði alla vega 13 milljarðar á ári. Ekki er talað um hvernig eigi að tækla það. Það dregst frá þessum 20. Þá eru ekki nema 7 eftir. Þá er þessi uppsafnaða fjárfestingarþörf eftir. Þá er kostnaðurinn við samgönguáætlun eftir. Það er ekki mikið eftir af þessum 20 milljörðum, það sem á að fara í heilbrigðiskerfið og menntakerfið og ýmislegt annað. Það er þetta sem vantar í stefnuna. Ég er að velta fyrir mér hvernig við getum haldið áfram með umræðu um þessa fjármálastefnu þegar við vitum þetta ekki.