146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:35]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott svar, að vísu með fyndnu inngripi. Ég er sammála því, það er gott að koma upp varúðarsjóði. Það er alltaf skynsamlegt að hafa varasjóði til staðar. Ég er líka sammála því, sem hv. þingmaður segir, að skuldir eru ekki alltaf slæmar. Stundum þarf maður að skuldsetja sig aðeins til að geta gert aðeins stærri hluti, en að vísu finnst mér hann alltaf örlítið klénn samanburðurinn á rekstri heimilis og rekstri þjóðarbús; hagfræðin er allt annars eðlis í síðara tilvikinu. Bæta má við einni spurningu úr því að hv. þingmaður nefndi svona reglur og eftir hvaða reglum ætti að starfa. Ég spurði aðeins út í það hvort þetta ætti að snúast um virka stjórnun á gengi eða hvort frekar ætti að nýta þetta í einhvers konar keynesískri hagsveiflujöfnun. Gæti hv. þingmaður kannski reifað einhverjar hugmyndir um hvaða reglur gætu átt við um svona sjóð? Nú höfum við ekki séð svona reglur frá hæstv. fjármálaráðherra né heldur nokkuð um þennan fyrirætlaða sjóð. Það á eftir að koma. Kannski mun eitthvað koma og kannski ekki, ég veit ekki, ég vona það. En staðan er sú í augnablikinu að þarna er búið að henda fram hugtaki í þessari frekar þunnu stefnu sem hefur ekki enn neina merkingu í okkar huga. Kannski höfum við tækifæri núna til þess að reyna að móta þessa hugmynd aðeins með samtali okkar á milli.