146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:16]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum spurninguna. Þetta er mjög góð spurning og snýr að verulegu leyti að því hvernig stjórnskipan landsins er sett upp. Nú er ég ekki lögfræðingur neitt frekar en hv. þingmaður er stærðfræðingur, eins og ítrekað kom fram í máli hans í gær, þannig að ég er kannski ekki sá besti til að fara í stjórnskipunarmál. Þó held ég að ef við ættum að skoða þetta sé staðan sú að lög um opinber fjármál séu að mestu leyti gild, að mestu leyti í samræmi við stjórnarskrá, en að í þeim lögum séu ákvæði sem stangast á við stjórnskipan landsins vegna þess að þau fela í sér að Alþingi fái ekki að taka ákvarðanir um nákvæma útdeilingu fjármuna í ákveðin atriði heldur bara í einhverja potta. Reyndin verður sú að Alþingi mun geta samþykkt hver þau fjárlög hverju sinni sem því sýnist. Það verður viðkvæði ríkisstjórnarinnar að þetta stangist á við fjármálaáætlun og fjármálastefnu, en Alþingi ræður þessu samt. Vandamálið er svolítið það að Alþingi ræður bara yfir þessum pottum samkvæmt þessum lögum.

Nú hef ég mikinn áhuga á stjórnskipan landsins. Þó svo að ég sé ekki lögfræðingur held ég að eitt af því sem myndi hjálpa mér mikið sé fyrirbæri sem sést í velflestum löndum, en hefur einhvern veginn ekki tíðkast hér, að þ.e. að hér sé stjórnskipunardómstóll, stjórnlagadómstóll, sem hafi frumkvæðisrétt að því að skoða lög og athuga hvort þau standist ákvæði stjórnarskrár. Við höfum ekkert svoleiðis fyrirbæri hér, alla vega ekki svo að ég viti, því hefur að minnsta kosti aldrei verið beitt. Ef við hefðum það væri að minnsta kosti hægt að láta reyna á þetta.