146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um kaup í Búnaðarbankanum.

[12:27]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Déjà-vu. Banki kaupir banka sem kaupir banka og slóðin liggur á gamalkunnar slóðir. Bresku Jómfrúreyjarnar í Tortólufélag glæpasamtakanna Mossack Fonseca og loks í fangið á gamalkunnum lykilleikara hrunsins forðum. Brotin, ef einhver voru á tímum villta vesturs íslensks fjármálamarkaðar, sem hafði verið afregluvæddur à la nýfrjálshyggjufræða hins sanna villta vesturs, eru fyrnd. Uppsetning nefndarinnar sem samanstóð af einum manni gerði henni ókleift að álykta um saknæmt athæfi, hvort sem um ræðir embættisafglöp Valgerðar Sverrisdóttur og Geirs H. Haardes eða annarra sem brugðust hlutverki sínu sem varðmenn verðmæta almennings. Það liggur ekki heldur fyrir hvort gegndarlaust siðleysi sem lýst er í skýrslunni hafi verið ólöglegt á þeim tíma sem lundamakkið átti sér stað.

Hv. þm. Brynjar Níelsson vill ekki ræða um innihald þessarar skýrslu og biður þingmenn að bíða stilltir áður en við tjáum okkur um þær blekkingar sem stjórnvöld eru sögð hafa orðið fyrir af hálfu lunda og Ólafs og annarra sniðugra karla með tékka. Við stöndum hér og ræðum af fullkomnu þekkingarleysi um þessa skýrslu sem við fengum í hendur í gær en það er meðvituð ákvörðun, m.a. hv. formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Brynjars Níelssonar, sem hafði heimild samkvæmt lögum um rannsóknarnefndir Alþingis til að taka skýrsluna fyrst til meðferðar í sinni nefnd áður en hún yrði tekin til umræðu á þingi.

Blekkingum var beitt eða svo segir skýrslan. Já, ginnkeypt, gráðug stjórnvöld sem seldu þjóðareign í hendur loddara og þjófa spáðu ekkert of mikið í hver væri þar á bak við eða hvort allt væri með felldu. Mikil er ábyrgð þeirra sem afsala sér þjóðareignum í hendur þeirra sem ekkert siðferði hafa, sem geyma sjóði sína í skattaskjólum hulin leyndarhjúpi. En við megum ekki ræða ábyrgð þeirra hér því að við höfum engan tíma fengið til að skilja hversu langt botnlaus vanhæfnin nær. Við eigum heldur ekkert að ræða loforðið sem Alþingi gaf þjóðinni árið 2012 um að rannsaka einkavæðingu bankanna í heild sinni til að vita, loksins, hversu langt botnlaus vanhæfnin og spillingin nær.

Herra forseti. Ef ekki nú, þá hvenær? Ef ekki við, þá hverjir? Ekki hæstv. forsætisráðherra, svo mikið er víst. Ekki hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem hefur ítrekað gagnrýnt dóma Hæstaréttar gegn títtnefndum Ólafi Ólafssyni í AlThani málinu, en hyggst nú fjalla um sama kauða og fléttu hans í sinni nefnd. En við getum gert það, herra forseti, við sem sitjum hér getum séð til þess að Alþingi standi við gefin loforð og rannsaki til hlítar hvaða glæpir voru fleiri framdir við einkavæðingu bankanna. Við erum að gera það aftur núna og til þess eru vítin að varast þau.

Það er déjà-vu, herra forseti, nú er banki að nota banka til að kaupa banka og slóðin liggur í skattaskjól hulin leyndarhjúpi. Við fljótum sofandi að feigðarósi og ráðamenn hér sussa á okkur sem viljum komast að hinu sanna um það siðleysi sem eflaust grasseraði við einkavæðingu á bönkum þjóðarinnar.

Það er déjà-vu á sinnuleysi ráðamanna gagnvart því sem skiptir þjóðina raunverulegu máli, sannleika, heiðarleika og réttlæti. Það er déjà-vu um þann tíma sem ég stóð á Austurvelli í búsáhaldabyltingunni forðum og hrópaði með öðrum reiðum Íslendingum, með leyfi forseta: Helvítis fokking fokk.