146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og tek undir með honum þegar hann gagnrýnir fjármálareglur laga um opinber fjármál. Við í Samfylkingunni greiddum atkvæði gegn þeim og sögðum í atkvæðaskýringum að við myndum breyta þessum reglum eða taka reglurnar út úr lögunum um leið og við kæmumst í færi til þess. Það var rætt um það í fjárlaganefnd áður en frumvarp um opinber fjármál voru afgreidd út úr henni að setja útgjaldaþak, bæta því inn í 7. gr. Sem betur fer var það ekki gert og það fékkst ekki meiri hluti fyrir því. Kannski vegna þess að sú ríkisstjórn sem þá var var ekki últra-hægri stjórn, en um leið og hún kemur þá er útgjaldaþakið sett.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort honum fyndist viturlegra að hver ríkisstjórn myndi setja sér sínar fjármálareglur og hafa þannig áhrif á hagstjórnina sjálf, (Forseti hringir.) frekar en að negla fjármálaregluna niður í lögunum?