146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þegar við vorum að vinna lögin um opinber fjármál í fjárlaganefnd töluðum við heilmikið um sjálfbærnihugtakið. Við í minni hlutanum vildum að það yrði skilgreint í lögunum sjálfum en niðurstaðan var sú að skilgreiningin kom fram í meirihlutaálitinu. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga og að það gleymist ekki þar sem meirihlutaálitið er lögskýringarplagg og við látum það ekki líðast að það sé einhver önnur skilgreining á sjálfbærni höfð uppi þegar verið er að tala um þetta hugtak. Það stendur í nefndaráliti meiri hlutans að meiri hlutinn veki athygli á því að með sjálfbærri þróun sé leitast við að ná jafnvægi milli efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta. Svo er tekið fram að það skuli gætt að hag komandi kynslóða. Þegar er verið að tala um sjálfbær ríkisfjármál þá á að taka allar hliðar sjálfbærninnar inn í það hugtak. Stefnan sem við erum að tala um er svo rýr og það hefði þurft að draga betur fram þau áhersluatriði sem hv. þingmaður fjallaði um í ræðu sinni. Því miður vitum við ekki alveg hvort miðað er við þessa skilgreiningu á sjálfbærni, t.d. þegar talað er um skuldahlutföllin. Það læðist að mér sá grunur að þannig sé það einmitt ekki þegar maður horfir á þá spennitreyju sem fjármálareglurnar setja allt saman í. (Forseti hringir.) Ég vil biðja hv. þingmann að bregðast við þessu.