146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:57]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá kröfu sem kom fram í máli hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur og fleiri hér að þessir tveir fulltrúar stjórnarmeirihlutans verði kallaðir í salinn. Er það misminni í mér, er ég orðinn algerlega ruglaður, sem gæti náttúrlega verið möguleiki, að hér hafi menn verið að boða bætt vinnubrögð, aukið samtal, fyrir kosningar? Jafnvel stofnað heilu stjórnmálaflokkana til að bæta stjórnmálamenninguna? Er það misminni í mér að við afgreiðslu fjárlaga hafi sumir hv. þingmenn, núverandi hæstv. ráðherrar, sérstaklega mært þau vinnubrögð samstöðu og samtal sem hér fór fram? Mér finnst þetta algerlega galið. Núverandi stjórnarmeirihluti hendir málum inn í málstofu þjóðarinnar, situr svo af sér eitthvert þus í stjórnarandstöðunni, er eins og fangar að bíða eftir því að tíminn líði svo hægt sé að halda áfram, kasta næsta máli inn og keyra þetta í gegn. (Forseti hringir.) Hvar eru samræðustjórnmálin og vinnubrögðin sem heilu stjórnmálaflokkarnir lugu sig til valda með? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)