146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:25]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski gæfa mín og hv. þingmanns Elsu Láru Arnardóttur að nú á forsetastóli er einkar skýrmæltur forseti sem ég treysti fáum betur til þess að geta borið fram tungubrjóta vel og rétt.

Svo ég víki mér nú að spurningu hv. þingmanns. Að sjálfsögðu hefur maður áhyggjur af þessu þaki vegna þess að ég skil ekki hvers vegna það er sett inn nema — nú ætla ég að gerast leiðinleg og tortryggin — það sé sett inn vegna þess að það er pólitískur vilji hæstv. ríkisstjórnar að sjá til þess að hér verði ekki hægt að styrkja hið ríkisrekna velferðarkerfi. Það er eiginlega stóra spurningin sem eftir situr í mínum huga.