146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:17]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þingflokksformanni ríkisstjórnarinnar fyrir hjartnæma ræðu. Ég fékk bara tár í augun af að hlusta á hv. þm. Birgi Ármannsson lýsa stöðu mála hér í þinginu. Við vitum öll að ástæða þess að hér hafa verið margar sérstakar umræður og þingmannamál mjög áberandi á dagskrá er að öðrum málum hefur ekki verið til að dreifa og ekki höfum við viljað hafa fundarfall hér á Alþingi. Hins vegar er það algjörlega óviðunandi og óforsvaranlegt að þegar loksins koma inn mál frá hæstv. ríkisstjórn sé sérstökum umræðum sópað til hliðar. Ég verð nú að segja það að ef þessi mál hefðu verið skipulögð í sátt þá hefðum við verið að nýta þennan tíma til þess að eiga til að mynda sérstaka umræðu um fátækt sem ég held að sé talsvert meiri eftirspurn eftir hjá almenningi (Gripið fram í.) en að hlusta á deilur og ósætti um það hvernig eigi að haga dagskrá þingsins. Ég hef miklar mætur á hæstv. forseta og ég treysti því að hún muni stýra þessari síðustu viku í sátt svo að þessi umræða og aðrar komist á dagskrá. Annað er bara ekki í lagi, frú forseti.