146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

varnir gegn mengun hafs og stranda og hollustuhættir og mengunarvarnir.

355. mál
[19:01]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er kannski meðsvar frekar en andsvar. Ég þakka ábendinguna. Vafalaust vita embættismenn mínir í ráðuneytinu mikið um þetta. Ég skal viðurkenna að þetta var góð ábending, þetta var ekki það fyrsta sem ég hugsaði um og ég hef ekki yfirsýn yfir það, svo ég segi það alveg hreint út. Auðvitað er þetta eitthvað sem við þurfum að skoða. Raunar held ég að við þurfum að taka okkur tak. Það hefur gengið fínt með úrgangsmálefnin, ef maður getur sagt sem svo, úrgangsstefnu og allt það. Við erum blessunarlega komin með þá stefnu að hætta að urða, eins og var gert. Þó eru samt einhverjar blikur á lofti um að það séu enn þá hvatar í sumum sveitarfélögum til að safna í hauga. Við þurfum að vanda okkur og aðeins að spyrna við. Ég er að reyna að skoða þessi mál heildstætt og ábending hv. þingmanns var mjög góð inn í þá skoðun. Ég þakka fyrir hana.