146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Þetta eru margar spurningar. Ég ætla að fá að nýta þessar tvær mínútur til þess að reyna að skýra mál mitt. Sú vinna sem fór fram í fjárlaganefnd fyrir jólin var samráð. Sjö flokkar komu saman til þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu út frá þeim áherslum sem lagðar höfðu verið í kosningabaráttunni eins og ég tók fram í svari til hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar. Það sem gerðist síðan var að við komumst að sameiginlegri niðurstöðu. Það fylgdi því ábyrgð og það var sátt um það og var gert af heiðarleika að mínu mati, þess vegna var ég sátt við þær tillögur um útgjaldaaukningu til heilbrigðismála, svo það sé alveg á hreinu. Áherslur Bjartrar framtíðar komu þar skýrt fram.

Hvað varðar vinnulag þá stendur Björt framtíð líka fyrir nýtt verklag, ný vinnubrögð. Þegar ég tala um vinkilbeygjur við stjórnarskipti þá vil ég minnast á það að ég fagna því mjög að komin séu ný lög um opinber fjármál, svipuð og sveitarfélögin vinna eftir, þar sem við setjum okkur markmið, búum til mælikvarða og fylgjum þeim. Það er ekki farið eftir ákveðnum áherslum sérstakra þingmanna úr hverju kjördæmi fyrir sig heldur er farið eftir faglegum áherslum út frá forgangsröðun verkefna, út frá markmiðum sem menn setja sér og unnið eftir mælikvörðum. Ég fagna því mjög að unnið sé eftir slíku vinnulagi í dag og í framtíðinni.

Ég vona, þó að þetta hafi verið mjög sérstök sátt sem var niðurstaða fjárlaganefndar fyrir jólin, sem var söguleg, þá vona ég líka að þessi vinnubrögð séu söguleg á þann hátt að þetta verði aldrei gert aftur með þessum hætti.