146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

vátryggingasamstæður.

400. mál
[16:26]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig að heyra að hæstv. fjármálaráðherra hefur tekið eftir og lesið gagnrýni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins varðandi Fjármálaeftirlitið og sjálfstæði þess og umfang þegar kemur að því að sinna eftirlitinu sem því ber. Ástæðan fyrir því að ég minntist sérstaklega á fjármögnun til eftirlitsins er sú að það hefur verið einn af gagnrýnipunktunum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en einnig spyr ég vegna þess að í samráðsráðherrahópi hæstv. fjármálaráðherra eru núverandi ráðherrar og fyrrverandi þingmenn sem töluðu mikið fyrir því að draga úr fjárveitingum til Fjármálaeftirlitsins á síðasta kjörtímabili. Því er ágætt að fá nánari útskýringar á því, vegna þess að mér heyrðist hæstv. fjármálaráðherra vera að ýja að því að hann vildi fara að skoða nánar hvort þyrfti með einhverjum hætti að koma inn í eflingu eftirlitsins og auk þess sem, eins og ég benti á, við höfum fjallað um tvö lagafrumvörp sem hæstv. fjármálaráðherra lagði fram bara í dag sem fela í sér að Fjármálaeftirlitið þarf að axla meiri skyldur og takast á við viðameiri verkefni en áður.

Ég mundi gjarnan vilja fá að heyra nánari útlistanir á hugmyndum hæstv. fjármálaráðherra um það hvernig hægt sé að styrkja Fjármálaeftirlitið. Með hvaða hætti hann sér hann það fyrir sér? Yrði það sérstök lagabreyting eða auknar fjárveitingar til eftirlitsins eða einhverjar leiðir til þess að auka skilvirkni eftirlitsins þegar kemur að hlutum á borð við fjármálakerfið, þar sem er svo brýnt að eftirlitið virki, sé ekki endilega stærra og umfangsmeira, heldur að það virki?