146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

411. mál
[17:38]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt, við leggjum til í frumvarpinu að fækka stjórnarmönnum úr fjórum í þrjá. Það er eins og fram kemur heppilegra að hafa oddatölu. Að öðru leyti er þetta óbreytt, þ.e. það sé einn fulltrúi frá Samtökum ferðaþjónustunnar, einn frá sveitarfélögum og einn frá ráðuneytinu. — Nú man ég ekki hvað hv. þingmaður var að spyrja mig um áður. (KÓP: Heildartöluna með …) Já, einmitt. Við erum nefnilega búin að vera að kortleggja alla innviðauppbyggingu í þágu ferðamanna og ferðaþjónustunnar og þeirrar atvinnugreinar. Það er líka áhugavert að taka samgöngumál inn vegna þess að menn eru farnir að veita því meiri athygli og er sett inn í samgönguáætlun sérstaklega. Það eru ákveðnar framkvæmdir sem gagnast ferðaþjónustu og ferðamanninum sérstaklega.

Við erum að setja aukna fjármuni líka í landsáætlun. Það er náttúrlega nýtt fyrirbæri, það hefur í raun ekki verið til áður. Ég er viss um að það verður erfitt að setja alla þá fjármuni í landsáætlunina sem menn telja að vanti í hana. Það eru gífurlegar fjárhæðir ef maður tekur alla þá uppbyggingu sem þarf. Ég þekki ekki nákvæma tölu. Ef tekið er það sem er nú þegar undir þjóðgörðum og fleira þá kemur það inn í landsáætlunina. Svo verða settir auknir fjármunir þar inn.

Verkefnið er að tryggja fjármögnun landsáætlunar og svo fær Framkvæmdasjóður ferðamannastaða aukið fjármagn. Þannig að samanlagt er þetta meira, en ég er alveg viss um að það mun koma fram að áfram vanti fjármagn í landsáætlun.