146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Katla Hólm Þórhildardóttir (P):

Frú forseti. Síðastliðinn föstudag lagði ég fram frumvarp um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Lagabreytingin er þess efnis að í tilfellum andvana fæðingar munu báðir foreldrar barnsins fá greitt orlof óháð hjúskaparstöðu.

Í lögum um fæðingarorlof liggur fyrir að þegar foreldrar sem ekki eru skráðir í sambúð eiga barn þarf að liggja fyrir samningur um sameiginlega forsjá eða umgengni til þess að foreldrið sem ekki fæðir barnið fái fæðingarorlofsrétt sinn. Þegar barn er fætt andvana er eðli málsins samkvæmt ómögulegt að ganga frá slíkum samningi. Þá er ómögulegt fyrir foreldrið sem ekki fæðir barnið að fá tíma til að syrgja og jafna sig á því mikla áfalli sem barnsmissir er.

Er þetta réttlátt? Nei, þetta er ekki réttlátt. Hlutverk okkar hér á þessum vettvangi er m.a. að tryggja réttlæti og sanngirni fyrir fólkið í landinu. Hér eigum við að finna gloppurnar og vandamálin í lögum landsins og bæta úr fyrir hag heildarinnar.

Ég tel þessi lög í núverandi mynd ýta undir skaðlegar hugmyndir karlmennskuímyndar. Það er skaðlegt fyrir karla í heild sinni að gera lítið úr tilfinningum sínum, upplifun af missi og andlegri líðan. Nú hafa undanfarin misseri átt sér stað afar mikilvægar umræður í samfélaginu um slæm áhrif þess að gefa körlum ekki svigrúm til að finna fyrir eðlilegum og mannlegum tilfinningum. Það kemur niður á heilbrigði þeirra og ýtir undir skaðlegar hugmyndir um karla og karlmennsku.

Það er eindregin ósk mín að málið komist að á þessu þingi þannig að það dagi ekki uppi og þurfi að leggja fram öðru sinni. Þetta mál er hreinræktað jafnréttismál. Ég get ekki ímyndað mér að ríkisstjórn sem segist standa fyrir jafnrétti kynja muni ekki veita því brautargengi.