146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:50]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa spurningu. Þetta er góð spurning. Það er einfalt að svara henni. Ef maður tæki þá grunnlínu sem fjármálaráðuneytið og hæstv. fjármálaráðherra gera ráð fyrir, að gengið haldist stöðugt, en byggi síðan til vikmörk sem þenjast út smám saman yfir tímabilið út frá því sögulega flökti sem við höfum séð síðustu fimm ár og reiknaði inn í það samhverft svo við séum ekki að mæla krónunni bót né skaða, en vikmörk sem hljóðuðu upp á kannski 95% eða 90% og jafnvel eitthvað neðar, þá væri hægt að sjá einhvers konar keilu sem þendist út yfir tímabilið þar sem við gætum mælt áreiðanleika spádómsins á hverjum tímapunkti. Þetta er einföld aðferðafræði sem er vel þekkt. Einnig gætum við talað um aðra möguleika eins og að setja upp, eins og hv. þingmaður nefndi, einhverjar sviðsmyndir þar sem við gerðum ráð fyrir 10% raunhækkun, 10% raunlækkun eða einhverju svoleiðis. Þetta er allt saman líka vel þekkt. Eða þá að við gætum jafnvel farið þá leið sem hæstv. fjármálaráðherra hefur talað mikið fyrir, að fara í einhvers konar gengisbindingu við aðra gjaldmiðla. Það er kannski aðeins stærri aðgerð en þá þyrftum við kannski ekki að ræða um þetta tiltekna atriði.

Það sem ég meina með þessu er í grundvallaratriðum að til eru ótal aðferðir til að setja svona spár fram á þann hátt að ekki sé verið að ganga út frá að einhver hlutur verði sannur yfir fimm ára tímabil sem hefur sögulega ekki einu sinni reynst sannur yfir fimm daga tímabil. Það er kjarni málsins. Aðferðafræði skiptir alveg gríðarlegu máli í öllu svona. Mér finnst vera aðferðafræðilega rangt að þessu staðið.