146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

framtíðarsýn í menntamálum.

[10:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég get ekki annað en nýtt tækifærið sem við höfum hér í óundirbúnum fyrirspurnum til að eiga orðastað við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um framtíðarsýn í málaflokki hans út frá þeirri fjármálaáætlun sem við ætlum að ræða í dag. Það vekur athygli að þegar við skoðum skólamálin, til að mynda fjárframlög til framhaldsskóla, þá lækka þau á tímabilinu umfram það sem gert var ráð fyrir í síðustu fjármálaáætlun sem þó var lögð fram af fjármálaráðherra úr sama flokki og hæstv. menntamálaráðherra er í og hæstv. fyrrverandi menntamálaráðherra stóð að. Þegar þau framlög voru kynnt á sínum tíma var tekið fram að þrátt fyrir styttingu framhaldsskólans yrði þess gætt að framlög myndu ekki lækka því að mikilvægt væri að hækka framlög á hvern nemanda og bæta stöðu skólanna. Ekki er vanþörf á, myndu sumir segja, t.d. miðað við stöðuna í starfsnámi sem var kynnt í gær.

Þegar við skoðum framlög til háskólastigsins beinlínis lesum við um það í áætluninni að búist sé við fækkun. Hæstv. fjármálaráðherra kom hér upp í gær og sagði: Þetta er heilbrigð fækkun háskólanema. Bíddu, stefnum við ekki fram? Sækjum við ekki fram? Íslenskir háskólar snúast ekki aðeins um Ísland. Þeir eru í alþjóðlegri samkeppni. Þeir eiga að vera að sækja sér nemendur út í heim, vera í fararbroddi hvað varðar rannsóknir og vísindi. Þetta eru undirstöðustofnanir okkar. Hér er bara komið upp og talað um heilbrigða fækkun háskólanema og því sé ósköp eðlilegt að horfa til framlaga.

Ég vil spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, sem hefur talað með þeim hætti að hann vilji sjá sókn í málefnum skólanna, hvort hann sé sáttur við þá framtíðarsýn að framlög á hvern nemenda séu hækkuð með því að fækka nemendum, hvort hann telji það eðlilega framtíðarsýn fyrir íslenskt samfélag að við ætlum ekki að auka meira (Forseti hringir.) við háskólana okkar, sem eru undirstöðustofnanir fyrir atvinnulíf framtíðarinnar.