146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

sala Seðlabankans á hlut sínum í Kaupþingi.

[10:52]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við gerum okkur auðvitað grein fyrir því að Seðlabankinn er sjálfstæð stofnun, en það er hins vegar ekki eins og Seðlabanki Íslands sé ráðherra framandi. Seðlabankinn heyrði undir núverandi forsætisráðherra þegar hann sat í stóli fjármálaráðherra, hann hefur því haft yfir honum að segja í tæp fjögur ár, en eins og vitað er færði hann málefni Seðlabanka með sér í Stjórnarráðið.

Eins og málið blasir við hefur Seðlabanki Íslands tapað um 5 milljörðum kr. á því að selja bréfin í Kaupþingi. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra: Er ástæða til að ætla að svo sé um fleiri hluti sem Seðlabankinn hefur selt á undanförnum misserum og árum? Hefur einhver úttekt farið fram á því á vakt ráðherra? Ég er sammála hæstv. forsætisráðherra í því og gleðst yfir þeirri yfirlýsingu að nauðsynlegt sé að fá skýr svör við þessu. Er leiðréttingarákvæði í samningnum? Horfumst við í augu við það að þetta kerfi, þessir aðilar, hafi enn og aftur leikið á íslenska aðila og látið okkur selja eignir á lægra verði (Forseti hringir.) en aðrir síðan versla með, vegna þess að þeir höfðu vitneskju um meira?