146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[11:14]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þessi stefna staðfestir svik við kosningaloforð stjórnarflokkanna sem gefin voru í haust. Hún afhjúpar líka flokkana tvo, Bjarta framtíð og Viðreisn, sem hafa nú endanlega fellt grímuna og birtast bara sem klassískir hægri flokkar. Við vörum sérstaklega við útgjaldareglunni sem eiginlega krefst þess að sífellt bólgnara efnahagskerfi sé forsenda þess að við getum staðið við það sem við lofuðum. Reynslan sýnir okkur að það munu koma mögur ár. Þá lendir ríkisstjórnin í spennitreyju. Þá er eitt vopn í vopnabúrinu, það er niðurskurðarhnífurinn. Við vitum á hverjum hann kemur til með að bitna, hæstv. heilbrigðisráðherra. Við munum greiða atkvæði breytingartillögu um að þessi regla verði felld út, en við munum ekki samþykkja fjármálastefnuna.