146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:44]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Forseti. Við erum að sigla inn í nýja tíma í alþjóðastjórnmálum, tíma þar sem það er enn mikilvægara en áður að við sem stjórnmálamenn stöndum fast á og með frjálslyndum gildum, tíma þar sem aukin verndarstefna og einangrunarhyggja sækja að fjölþjóðasamstarfi í okkar heimshluta. Bæði Bretar og Bandaríkjamenn virðast vera að halla að sér. Ég hef áhyggjur af þessari auknu áherslu í heiminum á tvíhliða samninga og tvíhliða samstarf. Þessar nýju áherslur eru ekki í anda þess frjálslyndis sem við viljum standa fyrir hér á landi og þær ógna hagsmunum okkar. Þetta er alvarleg staða og sér í lagi fyrir lítið smáríki eins og Ísland. Ísland á allt undir stöðugleika í okkar heimshluta. Við eigum allt okkar undir því að samskipti, samgöngur, flutningsleiðir og viðskipti séu sem opnust og fjölþjóðlegust. Þetta snýr bæði að efnahagslegu öryggi landsins og getu okkar til að tryggja varnir þess. Þetta eru varhugaverðir tímar, tímar þar sem friður er ekki endilega sjálfsagður, þar sem það er að renna upp fyrir okkur hversu ótrúlega mikilvægt það er fyrir Ísland að Evrópusambandið haldi velli, ekki bara út frá viðskiptalegum og efnahagslegum forsendum heldur út frá því grundvallarhlutverki sem sambandið hefur þegar kemur að því að tryggja frið í okkar álfu.

Það er því mikilvægt að utanríkisráðuneytið lagi sig að þessum nýju aðstæðum. Ég fagna því þeirri vinnu sem nú er farin af stað og kynnt er í fjármálaáætlun sem sýnir að ráðherra er meðvitaður um mikilvægi þess að aðlaga utanríkisþjónustuna að þessum nýja raunveruleika. En ég vil jafnframt brýna ráðherra til að forgangsraða fjölþjóðasamstarfinu. Því þar getum við best varið hagsmuni okkar.

Mig langar að lokum að biðja ráðherra að greina aðeins frá þessari forgangsröðun, þ.e. hvort því megi finna stað í fjármálaáætlun að forgangsraðað sé í þágu fjölþjóðasamstarfs, þá sér í lagi á sviði varnar- og öryggismála.