146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:36]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að ansi mörgu. Ég ætla að byrja á að spyrja út í það að gengið er út frá samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda um 40% árið 2030 miðað við árið 1990. Þetta er ágætismarkmið en ég sé ekki að kolefnisjöfnunargjald og fleiri rafbílar muni eitt og sér ná því þegar verið er að setja á stofn mengandi stóriðju, eins og gert hefur verið undanfarin ár. Getur ráðherra fullyrt að þeir fjármunir sem veittir eru til orkumála dugi til að ná yfir þau markmið í orkuskiptum? Er gert ráð fyrir auknum fjárveitingum í grunnrannsóknir til að reyna að hemja þær hundruð þúsunda tonna koldíoxíðs sem ný kísilver og önnur stóriðja mun skila frá sér út í umhverfið?

Á bls. 231 í fjármálaáætluninni segir, með leyfi forseta:

„Meginverkefni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis er að stuðla að skilvirkri stjórnsýslu og eftirliti með þeirri starfsemi sem fellur undir ráðuneytið …“

Nú hefur Samkeppniseftirlitið lengi ekki verið nægilega fjármagnað með þeim afleiðingum að markaðsbrestir hafa átt sér stað á nokkrum stöðum í markaðnum með slæmum afleiðingum fyrir neytendur. Í markmiðum fjármálaáætlunar um markaðseftirlit og neytendamál er margt sem snýr að atvinnulífinu, t.d. varðandi faggildingu og einföldun regluverks, en ég sé mjög lítið sem snýr að Samkeppniseftirlitinu sjálfu. Stendur til að veita aukið fjármagn í markaðseftirlit?

Svo er spurning um forgangsröðun nýsköpunarverkefna. Í morgun sagði hæstv. ráðherra í andsvörum við hv. þm. Njál Trausta Friðbertsson að fjármálaáætlun væri ekki það sama og fjárlög, sem er vissulega rétt. En í svarinu kom í ljós sú afstaða að fjármálaáætlun myndi kannski ekkert standast í ljósi fjárlaga. Þetta þykir mér svolítið merkilegt þar sem fjármálaáætlun á auðvitað að vera umgjörð utan um fjárlögin (Forseti hringir.) þegar þau koma. Mig langar að fá skýringar á því.