146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:05]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Já, það má segja að það séu metnaðarfull markmið sem þarna eru sett fram. En forsenda þess að atvinnugreinin geti byggst upp til lengri tíma og blómstrað er að hinn almenni Íslendingur sé jákvæður gagnvart henni, einmitt vegna þess að hún teygir anga sína út um allt samfélag og er ekki þannig að menn sigli út á sjó, sæki þar fisk og komi svo í land og vinni hann. Ferðamennirnir fara um allt, eins og hv. þingmaður kom inn á, koma inn í samfélögin, eru í miklum samskiptum við hinn almenna Íslending, keyra um á vegunum, fara á staðina o.s.frv.

Leiðir til að stuðla að því snúa að mörgum þáttum. Það er auðvitað greinin sjálf sem ber ábyrgð og hefur miklar skyldur á herðum sér en það hafa stjórnvöld líka. Það sem stjórnvöld þurfa að gera er að ráðast í þá uppbyggingu sem mjög er kallað eftir. Ef náttúran þolir t.d. ekki einhvern ákveðinn fjölda ferðamanna á ákveðnum stöðum er það skylda að menn stígi inn í það. Ef það kallar á einhvers konar stýringu verður það að vera þannig. Gjaldtaka er ein leið til stýringar. En það eru margar leiðir til að stýra aðgangi ferðamanna um svæði og það er meiri háttar mál sem við þurfum að fara í. Við erum að hefja vinnu við að kanna þolmörkin.

Jákvætt viðhorf Íslendinga gagnvart ferðamönnum og ferðaþjónustunni og þolmörkin haldast í hendur, hvort sem það eru náttúruleg þolmörk, umhverfisleg eða hin samfélagslegu. Það eru hin samfélagslegu þolmörk sem ég hef í rauninni meiri áhyggjur af en hin náttúrulegu. Það er hægt að byggja upp staði þannig að þeir þoli mun fleiri ferðamenn, en hitt er áskorun. Við verðum að vanda okkur verulega til að missa það ekki úr höndunum á okkur.