146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:26]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherranum framsöguna og tek undir með henni að á málasviði dómsmálaráðherra eru gríðarlega mikilvægar grunnstoðir samfélagsins. Því skiptir miklu máli að fjárveitingavaldið búi þeim stoðum þann ramma sem þarf til að tryggja öryggi og réttindi borgaranna.

Mig langar að víkja aðeins að þyrlunum sem til stendur að kaupa, eins og fram kom í máli ráðherrans, sem er löngu tímabært skref sem ég held að við getum öll fagnað, að Landhelgisgæslan búi loks við viðunandi þyrlukost. Það vekur hins vegar spurningar, þetta er eitthvað sem komið hefur verið inn á í umræðum við aðra ráðherra, hvernig rekstrarkostnaði og stofnkostnaði er grautað saman í framsetningu í þessari áætlun. Þannig er búið að byggja inn í útgjaldaramma málefnasviðsins um almanna- og réttaröryggi 14 milljarða fjármögnun til kaupa á nýjum þyrlum, en á sama tímabili hækkar þessi rammi, uppsafnað, um 13.876 milljónir. Ef við lítum á þessar tölur þá bendir það til þess að þyrlukaupin muni éta upp alla þá aukningu sem er til málaflokksins. Þess vegna spyr ég: Hvað með allt hitt sem þarf að efla? Hvað með lögreglumennina 200 sem þyrfti að ráða til að við værum með fullnægjandi mönnun í lögreglunni? Hvað með rekstur á þessum þyrlum svo þær verði ekki alltaf við vörslu í Miðjarðarhafi eins og nýja, fína flugvélin sem Gæslan á? Hvað með eflingu getu lögreglunnar til rannsókna á netglæpum, kynferðisofbeldi? Hvað með allt þetta ef þyrlurnar éta upp alla 14 viðbótarmilljarðana? Þá verður ekki peningur til að efla.