146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:22]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég held að það sé nokkuð ljóst að við þurfum að styðja miklu betur við það fólk sem býr við fátækt og þau 6.000 börn sem líða skort núna í uppganginum, bæði út frá réttlætissjónarmiðum en líka út frá efnahagslífinu. Það er sárt að sjá að húsnæðiskostnaður margra vex hraðar en laun og lífeyrir. Við þurfum að koma leigjendum og ungu fólki úr fátæktargildru leigumarkaðarins.

Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra fyrst hvaða viðhorf hann hefur til tveggja þingsályktunartillagna og frumvarps frá Samfylkingunni, annars vegar um skattfrelsi á leigutekjum einnar íbúðar, sem leysir ekki stórt vandamál en getur verið hvati til að leigja fólki til langs tíma í staðinn fyrir að vera með íbúðir á ferðamannamarkaðnum, og hins vegar að byggja þúsund íbúðir frá 2018 og næstu þrjú ár þar á eftir og bæta þá við nokkur hundruð íbúðum á ári umfram það sem ráðherra ætlar að gera.

Ég held að við séum enn að súpa seyðið af því þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsókn seldu frá sér verkamannabústaðakerfið. Við þurfum að byggja upp félagslegt húsnæðiskerfi. Mig langar að spyrja ráðherra um viðhorf til þess.

Ég held að ég láti þetta nægja í bili.