146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

stefna í heilbrigðismálum.

[15:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég sem fjármálaráðherra hlýt að hafa áhyggjur af útgjöldum til heilbrigðismála og vil gjarnan að þeim peningum sé sem allra best varið. Ég held að við getum verið sammála um það að hér á landi hefur verið einkarekstur í heilbrigðiskerfi um langa hríð. Hann hefur að stórum hluta verið borgaður af opinberu fé. Ég held að það sé sjúklingum til góðs að hér séu fleiri aðilar sem geta læknað þá. Ég held það hafi stytt biðlista í kerfinu að hér eru nú nokkrar stöðvar sem geta gert bæklunaraðgerðir og aðrar slíkar aðgerðir. Ég held að það sé sjúklingum til góðs. Ég held að við verðum alltaf að horfa á það þannig að við eigum að setja sjúklinginn í öndvegi.