146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

húsnæðismál.

[17:10]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Frú forseti. Hv. málshefjandi, Hanna Katrín Friðriksson, spyr hæstv. ráðherra hvernig tryggja megi betra jafnvægi á markaði til lengri tíma og koma í veg fyrir að það ástand sem ríkir nú skapist aftur. Það er vissulega gleðilegt að heyra þessa tvo stjórnarliða ræða þetta í ljósi þess að ríkisstjórnin nefndi það ekki einu orði í sínum ríkisstjórnarsáttmála, hvorki húsnæðismál né leigumarkaðinn. En það er gott og vel að við erum komin svona langt að búið er að skipa í aðgerðahóp. Við þokumst klárlega í rétta átt fyrst samflokksfólk spyr hér hvert annað um það hvert skuli stefna. Gott og vel. Þakka ykkur fyrir umræðuna.

Það er deginum ljósara að eftir að verkamannabústaðakerfið var lagt niður fyrir um tveimur áratugum hafa markaðsöflin fengið að stýra húsnæðismarkaðnum að mestu. Núverandi staða er að verulegu leyti afrakstur þess. Tekjulágir einstaklingar og ungt fólk eru í þeim hópi sem verst stendur við núverandi aðstæður eins og fram hefur komið. Þessi hópur hefur ekki bolmagn til að kaupa húsnæði og á fárra annarra kosta völ en að leigja á almennum markaði. Strax á árinu 2012 vakti verkalýðshreyfingin athygli á því að ef vel ætti að vera þyrfti að reisa 1.000 íbúðir á ári í fimm ár og 600 á hverju ári eftir það. Á árinu 2015 gáfu stjórnvöld loforð um að leggja fram stofnframlög til niðurgreiðslu á byggingu um 2.300 íbúða fram til ársins 2019 í nýju almennu íbúðakerfi, kerfi sem mun nýtast ungu fólki og tekjulágum sem ekki á neitt eigið fé eða hefur takmarkaða greiðslugetu. En þetta eru bara 600 íbúðir á ári þessi fjögur ár, 2016–2019, ekki 1.000 eins og lagt hefur verið til. Svo er ekki að sjá og skilja annað en að miðað við fyrirliggjandi tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun muni þessi stofnframlög helmingast á árinu 2020, þ.e. niður í 300 íbúðir á ári. Er þetta rétta leiðin, hæstv. ráðherra, til að koma í veg fyrir að það ástand sem nú ríkir viðhaldist?