146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

húsnæðismál.

[17:20]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Þar sem spjótin beinast að sveitarfélögum margoft og ítrekað í þessari umræðu langar mig til að tala af svolítilli reynslu á þeim tveimur mínútum sem ég hef hér. Ég veit ekki alveg hvar ég að byrja, en ég ætla að byrja á því að lýsa yfir vonbrigðum. Sveitarfélög mörg hver á höfuðborgarsvæðinu hafa frá 2014 að minnsta kosti ítrekað óskað eftir samráði við ríkið og fjármálastofnanir um samstarf. Ef ég má nefna það hér þá kom þessi fína skýrsla út eftir starfshóp í sveitarfélaginu Kópavogi þar sem farið var yfir mörg úrræði. Þetta er 2014, 2015 og í dag er 2017. Þar koma fram alls konar útfærslur á þeim vanda sem við glímum við í dag. Við komum með tillögu um að breyta lögum. Við komum með tillögu varðandi félagsleg húsnæðisúrræði, þrepaskipta leigu, úrræði fyrir þá sem hafa hækkað í launum og hefur mögulega verið hent út úr félagslega kerfinu. Við erum að tala um fyrstu íbúðarkaup. Við erum að tala um fjölda íbúða á leigumarkaðnum og það eru alls konar kaupleiguúrræði og ýmislegt annað. Ríkið fer af stað með eitthvað sem heitir lög um almennar íbúðir og ítrekað óskuðum við eftir samstarfi og samráði við sveitarfélögin. Ég er alveg viss um að ef við hefðum mótað okkur sameiginlega stefnu í húsnæðismálum 2014, ef við værum með réttar tölulegar upplýsingar um ferðaþjónustuna, um lýðfræðilega þróun, hefðum farið samtaka í þessi úrræði og þetta samstarf, þá værum við ekki á þessum stað í dag.