146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

húsnæðismál.

[17:39]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Það hefur verið mjög áhugavert og gagnlegt að hlusta á umfjöllun hv. þingmanna um þetta mikla hagsmunamál almennings, húsnæðismálin. Mig langar að nota tækifærið hér í annarri umferð til að ræða vaxtakjör á Íslandi í tengslum við húsnæði. Ég fullyrði, líkt og margir aðrir, að lækkun vaxta á húsnæðislánum til lengri tíma sé eitt stærsta hagsmunamál kaupenda og leigjenda húsnæðis í dag á Íslandi. OECD gefur árlega út lista, „Better Life Index“, yfir stöðu mála hjá hinum 38 ríkjum samtakanna. Á þeim lista liggja til grundvallar þættir á borð við tekjur, atvinnuleysi, menntun, heilsu, lýðræðislega þátttöku, jafnrétti, öryggi — og síðan húsnæðismál. Við Íslendingar skorum býsna hátt á þessum lista almennt, en þegar kemur að húsnæðismálum blikka einfaldlega eldrauð ljós, ekki vegna þess að við búum almennt illa heldur vegna gríðarlegs kostnaðar fólks á Íslandi við að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Að meðaltali nota Íslendingar fjórðung af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæði og sitja hvað það varðar í 5. neðsta sæti lífsgæðalista OECD. Þetta er sem sagt staðreynd þrátt fyrir þá staðreynd síðan að ýmis kostnaður við ýmsa þætti húsnæðis eins og rafmagn og hita sé lægri hér á landi en víðast annars staðar. Eins og staðan er í dag borgum við Íslendingar ríflega heilu húsi meira af fasteignalánum okkar en nágrannar okkar á Norðurlöndunum.

Lækkun vaxta er einfaldlega ein mesta kjarabót sem hægt er að færa íslenskum heimilum. Sú áhersla er því gríðarlega mikilvægt atriði í aðgerðum stjórnvalda í þágu almennings, m.a. í húsnæðismálum. Ég hefði áhuga á að heyra frá hæstv. ráðherra um þessi mál til viðbótar við allt annað sem hann hefur verið spurður um í þessum mikilvæga málaflokki hér í dag.