146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum.

276. mál
[18:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna. Það er gott að finna þennan mikla áhuga í þingsal á sálfræðiþjónustu við framhaldsskólanemendur. Ég þakka líka ráðherranum kærlega fyrir svörin.

Ef ég skil ráðherrann rétt er stefna hans og sýn á sálfræðiþjónustu sú að byggt verði upp við heilsugæsluna þannig að sálfræðiþjónustan við framhaldsskólana fari í gegnum heilsugæsluna. Komið hefur ábending um að hugsanlega verði starfsstöðvar eða viðkoma sálfræðinga eða þeirra sem sinna geðheilbrigðisþjónustu við framhaldsskólana. Eins og fram kemur í stjórnarsáttmálanum, og er þá sýn ráðherrans, verður sálfræðiþjónusta gerð hluti af greiðsluþátttökukerfinu í skrefum. Í Danmörku er ákveðin tegund af þjónustu sem snýr að sálfræðiþjónustu hluti af danska greiðsluþátttökukerfinu þegar fólk kemur með tilvísun frá heimilislækni.

Í bæklingi frá landlæknisembættinu er tekið sérstaklega fram að allir framhaldsskólarnir okkar séu heilsueflandi. Þeir vilji leggja áherslu á heilsu nemenda sinna, sem er einkar jákvætt. Það ætti þá að endurspeglast í vilja þeirra til að eiga gott samstarf við heilsugæsluna.

Mér finnst líka jákvætt að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir nefndi sérstaklega fjarþjónustu, að nýta tæknina til þess að veita sálfræðiþjónustu þar sem ekki gengur, t.d. vegna mannfæðar, að halda úti heilli stöðu sálfræðings. Ef mig misminnir ekki hefur sálfræði verið eitt vinsælasta námsgreinin við háskólana. Það ætti vonandi að endurspeglast í því að það gæti gengið ágætlega að manna stöður.

Það væri gott að heyra frá (Forseti hringir.) ráðherranum hvernig hann sér fyrir sér þær stöður sem nú þegar eru komnar eða eru áætlaðar í heilsugæslunni. Eða verður bætt við enn frekar samkvæmt ríkisfjármálaáætluninni?