146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

efling verk- og iðnnáms.

277. mál
[18:22]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég tek undir að það er að mörgu að hyggja varðandi starfsnám. Við þekkjum vandamál þeirra skóla sem eru dýrari í rekstri og við þekkjum líka umræðuna um reiknilíkanið sem er búið að vera í endurskoðun ansi lengi. Lítið virðist skila sér. Í fjármálaáætlun er þrátt fyrir allt uppsafnaður niðurskurður upp á 1.700 milljónir sem er lækkun á tímabilinu. Ég held að ekki veiti af þessum fjármunum, sérstaklega inn í verknámsskólana. Við þekkjum sögurnar af því að búnaður hefur ekki verið endurnýjaður gríðarlega lengi, það er ekki hægt að nota forrit vegna þess að tölvurnar ráða ekki við þau o.s.frv. Það er gríðarlega mikil þörf fyrir uppbyggingu á innviðum í framhaldsskólum, sérstaklega hjá starfsnámsskólunum.

Það þarf líka að huga að greiðslum fyrir vinnustaðanám. Það er eitt af því sem hefur verið rætt í gegnum tíðina, (Forseti hringir.) að þeir sem taka nemendur í vinnustaðanám fái í raun of lítið fyrir það til að þeir leggi á sig þá vinnu sem fylgir því, m.a. að halda leiðarbók með nemanda.