146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

yfirferð kosningalaga.

140. mál
[18:54]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem er gagnleg og mun örugglega fara hér fram nokkrum sinnum á þessu kjörtímabili og svo sem kannski full ástæða til.

Ég get tekið undir það sem hv. fyrirspyrjandi spurði um, það er auðvitað möguleiki að fjölga jöfnunarmönnum á kostnað kjördæmakjörinna. Það er hægt að gera með einfaldri breytingu á kosningalöggjöfinni, með tilskildum meiri hluta á þinginu. Þá eru menn kannski að líta til þess að ekki sé eins mikið happdrætti hvar jöfnunarmennirnir lenda.

Ég vil nefna að menn þurfa að hafa í huga að mögulega er þetta kerfi í dag skásta kerfið sem við getum haft ef menn vilja hafa uppi þau markmið sem þessu kerfi er ætlað að vinna að, sem eru einhvers konar staðbundin áhrif. Menn vilja standa vörð um það, en þó ekki þannig að flokkum sé mismunað. Svo ég haldi uppi einhverjum vörnum fyrir þetta kerfi sem við höfum í dag, þótt ekki væri nema af því að það var enginn annar sem gerði það í þessari umræðu, þá þarf nú að gæta hér einhverrar smásanngirni í þessu.

En ég vil að lokum nefna að skýrsla vinnuhópsins liggur fyrir, hann skilaði henni síðasta haust. Í henni koma fram ágætar ábendingar um framkvæmd kosninga. Þar er t.d. bent á, sem við þurfum að fara að gera strax næsta haust, að breyta tímafrestum þannig að utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefjist ekki áður en framboðsfrestur renni út. Þar er bent á kosti þess að vera með rafræna kjörskrá. Menn geta auðvitað haft mismunandi skoðanir á því. Og svo er líka lögð áhersla á að við þurfum að breyta (Forseti hringir.) framkvæmd á atkvæðagreiðslu á kjörfundi, m.a. með hliðsjón af ábendingum ÖSE sem hafa verið gerðar hér við kosningaeftirlit. Ég trúi ekki öðru en að allur þingheimur muni standa saman að þeim breytingum.