146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

rannsóknarsetur um utanríkis- og öryggismál.

305. mál
[18:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Smári McCarthy) (P):

Herra forseti. 30. apríl 2009 var samþykkt á Alþingi þingsályktun sem hljóðaði þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórn Íslands að setja á stofn rannsóknarstofnun um utanríkis- og öryggismál.“

Í greinargerð með henni segir, með leyfi forseta:

„Þróun mála í Asíu, einkum í Kína sem er á hraðri leið í átt að verða efnahagslegt stórveldi, auk vaxandi viðleitni Rússlands til að endurheimta fyrri áhrif í alþjóðamálum, mun hafa víðtæk áhrif á þróun heimsmála. Þá mun mótun utanríkis- og varnarmálastefnu Bandaríkjanna í kjölfar þess að nýr forseti tekur við völdum í janúar næstkomandi hafa veruleg áhrif á alþjóðlegt samstarf, m.a. innan Atlantshafsbandalagsins og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.“

Þetta var árið 2009, herra forseti. Ef þetta átti við þá á þetta tífalt betur við núna í ljósi þess að nú hefur nýr forseti tekið við í Bandaríkjunum og bæði Kína og Rússland hafa gert töluvert meira vart við sig.

Það er margt ágætt í þessari greinargerð, m.a. að víða erlendis, t.d. á Norðurlöndunum, starfa rannsóknarstofnanir sem sérhæfa sig í alþjóðamálum og í þróun þeirra. Við höfum Alþjóðamálastofnun við Háskóla Íslands. Hún var sett á laggirnar 1990 en hún starfar í raun ekki sem rannsóknarstofnun sem slík eða gerði það ekki, að því er ég best veit. Það er full ástæða til að skoða hvort svona rannsóknarstofnun eigi ekki við.

Ég spyr því hæstv. utanríkisráðherra hvernig miði vinnu við að kanna grundvöll þess að setja á stofn sjálfstætt rannsóknarsetur á sviði utanríkis- og öryggismála, samanber þessa þingsályktun. Oft var þörf en nú er nauðsyn.