146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[14:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Vissulega hefur versnandi ástand mannréttindamála á Filippseyjum að undanförnu valdið okkur áhyggjum. Rodrigo Duterte tók við völdum sem forseti Filippseyja í lok júní á síðasta ári, tveimur mánuðum eftir að fríverslunarsamningur EFTA og Filippseyja var undirritaður. Það er alveg rétt að taka fram að af hálfu EFTA-ríkjanna hefur verið lögð áhersla á að hafa inni í fríverslunarsamningum EFTA ákvæði er lúta að vernd mannréttinda. Í samræmi við það er í formálsorðum samningsins við Filippseyjar áréttuð skuldbinding ríkjanna um að styðja við lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi í samræmi við ákvæði sáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Þá er rétt að upplýsa í þessu sambandi að ég gagnrýndi stjórnvöld Filippseyja og Duterte forseta harkalega á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í febrúarmánuði síðastliðnum. Þeirri gagnrýni hefur síðan verið fylgt eftir af embættismönnum ráðuneytisins á vettvangi mannréttindaráðsins. Síðan má nefna að næsta lota í svokallaðri jafningjarýni á vettvangi mannréttindaráðsins hefst í Genf í byrjun maí. Filippseyjar koma þar til skoðunar. Við munum koma athugasemdum okkar og spurningum til þarlendra ráðamanna í því ferli. Í ljósi aðstæðna í landinu nú má gera ráð fyrir að það verði gert refjalaust.