146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[14:38]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á seinna andsvari hv. þingmanns, þegar hann talar um samskipti við íbúana. Við erum að tala um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja. Eins og fram kom í ræðu minni áðan, ef hv. þingmaður hefur hlýtt á hana, er mér fyrirmunað að skilja hvers vegna við leggjum áherslu á að fullgilda þennan fríverslunarsamning á meðan Duterte forseti situr við völd. Kurteislegar athugasemdir nægja ekki. Ég er þeirrar skoðunar að við ættum ekki að fullgilda fríverslunarsamning við ríki þar sem iðkuð eru dráp og morð án dóms og laga í boði forseta þeirra ríkja.