146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[14:46]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að árétta það að vegabréfslausar samgöngur milli Georgíu og okkar landa, m.a. Evrópulanda, er ekki hluti af fríverslunarsamningi Íslands og EFTA við Georgíu heldur er það Schengen-samstarfið. Það vildi bara þannig til að þetta átti sér stað í sömu viku. Ég fagnaði því. Og ég fagna almennt þegar fríverslunarsamningar eru gerðir. Mér fannst það frábær stund þegar Pólland og fleiri lönd gengu í Evrópusambandið vegna þess að þess háttar samvinna hjálpar. Ég mun sömuleiðis ýta undir að það sé frekari alþjóðasamvinna og fríverslun milli landa eins og t.d. Evrópulanda og Moldavíu eða Úkraínu, Georgíu, í auknum mæli, jafnvel Aserbaídsjan, landa sem ekki hafa algjörlega fullkomlega hreinan skjöld þegar kemur að mannréttindamálum. En það er ákveðin mörk, það er ákveðin lína sem við verðum að draga.

Mér finnst áhugaverður punktur sem hv. þm. Pawel Bartoszek kom inn á, að ekki er talað um flutningsfrelsi fólks milli landa í þessum samningi enda er það yfirleitt ekki gert í samningum EFTA-ríkjanna við önnur lönd. En mér finnst það einmitt mikilvægt að svokallað fjórfrelsi Evrópusambandsins, sem snýst um frjálst flæði á vörum, þjónustu, fjármagni og starfsfólki, mannafla, skiptir alveg höfuðmáli vegna þess að ef fjármagnið og vörurnar fá að flytja sig á ódýrustu staði í heimi, m.a. Filippseyjar, en fólkið fær ekki að færa sig á þá staði þar sem er bestu launin, er verið að búa til einhvers konar holur í heiminum þar sem mannréttindabrot fá að grassera. Það þekkjum við.

Staðreyndin er engu að síður sú að ríkisstjórn Dutertes uppfyllir ekki einu sinni minnstu lágmarksskilyrðin um mannréttindi sem við vitum þó að voru í hávegum höfð í Póllandi árið 2003.