146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[15:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hversu mikið ég á að fara yfir þetta með stjórnarandstöðuna; stjórnarandstaðan þarf ekki að vera á móti, ég hélt því aldrei fram. Það er hins vegar eðlilegt að stjórnarandstaðan, og svo sem líka stjórnarliðar, veiti aðhald, það er fullkomlega eðlilegt.

Varðandi ósanngirnina: Þegar ríkisstjórn, sama hver hún er, samþykkir fríverslunarsamning — í mjög langan tíma hafa slíkir samningar verið gerðir í góðri sátt við allra handa ríki, Kína og ýmis önnur ríki — eru viðkomandi stjórnmálamenn ekki með nokkrum hætti að samþykkja mannréttindabrot sem framin eru í viðkomandi landi. Það er vægast sagt ósanngjarnt að halda því fram. Ef hv. þingmaður færi á heimasíðu Amnesty og bæri saman við fríverslunarsamninga sem við erum með og aðrar vestrænar þjóðir — ég ætla hv. þingmönnum það ekki að halda því fram að allir hv. þingmenn í öllum þjóðþingum sem hafa samþykkt slíka samninga hafi verið að skrifa upp á mannréttindabrot í viðkomandi löndum en á orðum manna mátti skilja að sú væri vegferðin. Ég kýs að taka því þannig, nema einhver haldi því virkilega beint fram eftir þessi orð mín að það sé gert, að við séum sammála um að við séum ekki á þeim stað.

Ég man ekki til þess að einhver hafi haldið því fram að ef þú fellir niður tolla fari mannréttindi sjálfkrafa í lag. Við vorum að ræða þetta í allt öðru samhengi. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson veit það mætavel. Á þeim sex sekúndum sem ég hef ætla ég ekki að endurtaka fyrri ræðu mína hvað það varðar.