146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[16:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum komin á þann stað að vera öll sammála um að þeir hv. stjórnmálamenn og þingmenn sem hafa í gegnum árin og áratugina samþykkt fríverslunarsamninga séu með því ekki að verðlauna, taka undir eða með neinum hætti að samþykkja mannréttindabrot sem eiga sér stað í viðkomandi viðskiptalöndum okkar. Ég tel að við séum komin á þann stað að þurfa ekki að ræða það frekar.

Ég er einn af 63 þingmönnum og ég mun ekki klára neinn fríverslunarsamning. Ég fagna því að fá hvatningu um að beita mér í mannréttindamálum. Ég hefði gert það þótt ég hefði ekki fengið hvatningu en það gott að fá stuðning til þess. Ég treysti því að sá stuðningur verði áfram.

Ég fór nákvæmlega yfir það hvað er verið að gera þegar kemur að málefnum Filippseyja, gerði það alla vega tvisvar. Ef við getum gert eitthvað betur skulum við ræða það. Núna er það hv. utanríkismálanefnd sem fer með málið, ef við náum að klára umræðuna hér í dag sem er ekki ólíklegt. Við skulum beita okkur með þeim hætti sem við getum þegar kemur að mannréttindamálum en líka vera sjálfum okkur samkvæm.