146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[16:18]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það verður að segjast eins og er að mér finnst rosalega leiðinlegt að þetta frumvarp eins og það lítur út eigi að setja lög um það sem kallað er rafsígarettur en hefur verið kallað annars staðar rafrettur, eimvél, eimsproti, veipa o.s.frv. Mér finnst það mjög dapurlegt að það eigi að fella lög um rafrettur undir tóbaksvarnalög. Það eru mjög margar ástæður fyrir því sem ég mun fara yfir í ræðu minni síðar, en mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé opinn fyrir breytingartillögum um frumvarpið í meðförum Alþingis, því að það hefur fengið mjög mikla gagnrýni frá mjög mörgum aðilum og sér í lagi neytendum. Því langar mig að inna hæstv. ráðherra að því hvort hann sé tilbúinn að vera með opinn huga gagnvart breytingum.