146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

432. mál
[19:57]
Horfa

Andri Þór Sturluson (P):

Frú forseti. Ég hnýt um 3. gr. þessa frumvarps sem kemur að viðurlögum, með leyfi forseta:

„Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn ákvæðum laga þessara og eftir atvikum reglugerð sem sett er á grundvelli þeirra.“

Hér erum við enn og aftur komin með nýja ástæðu til að fangelsa fólk sem hegðar sér ekki nákvæmlega eins og við hin viljum. Þeirri refsistefnu verður að linna sem fyrst. Auðvitað viljum við ekki að fólk skaði sig með lyfjanotkun og hormónum en eru einu úrræði sem við höfum virkilega þau að ríkið sjái frekar um skaðann með því að fangelsa fólk? Fangelsin eru miðaldatæki til að refsa. Ef markmið okkar, og þá þessara laga, er að koma í veg fyrir heilsutjón skulum við ekki beita úrræðum sem beinlínis valda andlegu heilsutjóni, tjóni sem bæði er hægt að telja í tíma, sem okkur er takmarkaður á þessari jörð, og tíma með fjölskyldu og lífinu sjálfu.

Hvílíkar hetjur sem refsiglöðu stjórnmálamennirnir sem með þetta koma yrðu ef farið yrði nýstárlegri leið til skaðaminnkunar og þeir sem þetta frumvarp nær til fengju meðferð við vandamálum sínum. Sterar og frammistöðubætandi lyf eru úrræði sem fólk grípur til af ástæðum sem fæst okkar skilja. Mér finnst hugsunarleysið, með tilvísun til refsiákvæðisins, sem einkennir þetta frumvarp ekki boðlegt á okkar tímum. Heldur virkilega einhver árið 2017 að það að banna eitthvað virki? Það hefur aldrei virkað.

Auk þess er í frumvarpinu sama staðreyndavilla og í öðrum af svipuðum toga þar sem fullyrt er að frumvarpið, og þá refsiákvæðið, muni ekki ná til neytenda, aðeins stóru vondu sölumannanna. Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið mun einungis hafa áhrif á þá sem standa að ólöglegum innflutningi, útflutningi, sölu, kaupum, skiptum, afhendingu, móttöku, framleiðslu og vörslu framangreindra lyfja en ekki neytendur.“

Nú hef ég aldrei staðið í viðskiptum af þessum toga en get ímyndað mér að þau séu svipuð og önnur viðskipti: Neytendur þurfa að kaupa, móttaka og geyma framangreind lyf. Því getur ekki annað verið en að fjöldi þeirra muni eiga refsiákvæðin yfir höfði sér fyrir það eitt að vera neytendur.

Ég skal koma með aðrar staðreyndir. Oft er þessi notkun sálfræðilegt vandamál, tengist ýmsu, t.d. vöðvafíkn og sjálfsmynd. Það kostar íslenska ríkið 14–24 þús. kr. á dag að halda manneskju í fangelsi og það skilar engu. Ég var fangavörður í átta ár, ég veit það. Öll gögn benda til þess. Það veldur meiri skaða og kostnaði. Þú getur fengið tvo sálfræðitíma á dag handa hverjum og einum sem gerist brotlegur við þessi lög fyrir sama fé. Í staðinn fyrir að fangelsa getum við hjálpað fyrir sömu upphæð. Góð lagasetning felst ekki í því að troða inn mannskemmandi refsiákvæðum við öllu og engu. Góðir og hugsandi stjórnmálamenn haga t.d. fjármálaáætlanagerð þannig að samfélagið byggi upp einstaklinga. En þetta frumvarp með þessu refsiákvæði gæti allt eins hafa verið samið á miðöldum. Það skilar engu. Það nær ekki að uppfylla markmið sín, að takmarka heilsutjón, og lítur út fyrir að vera eitthvert færibandaverk.

Mig langar að minna hæstv. heilbrigðisráðherra á að það er hlutverk hans að hlúa að heilsu fólks. Það getur hann gert með því að stuðla að því að fólki sé veitt viðunandi heilbrigðisþjónusta. Hlutverk hans er ekki að finna upp nýjar leiðir til að fólk lendi í fangelsi.